Ætlar ekki að biðja Benedikt afsökunar

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Liðsmaður upp­still­ing­ar­nefnd­ar Viðreisn­ar í Reykja­vík seg­ir að Bene­dikt Jó­hann­es­son, fyrr­ver­andi formaður flokks­ins, hafi komið því skýrt á fram­færi að hann vildi aðeins odd­vita­sæti á lista flokks­ins og ekk­ert annað.

Natan Kol­beins­son, sem sat í upp­still­ing­ar­nefnd­inni, skrif­ar í færslu á Face­book að flokkn­um hafi þá verið vandi á hönd­um að koma Bene­dikt fyr­ir enda séu fyr­ir þrjár kon­ur í odd­vita­sæt­um á höfuðborg­ar­svæðinu sem hafi „náð að lyfta flokkn­um upp í rúm 11% og þar að auki starfað að heil­ind­um og dugnaði“.

Þar sem odd­vit­ar flokks­ins í lands­byggðar­kjör­dæmun­um þrem­ur eru karl­ar hafi verið erfitt að setja inn karl­kyns odd­vita.

„Ég fyr­ir mitt litla líf get ekki beðið hann eða nokk­urn mann skrif­lega af­sök­un­ar á því að neita að hverfa frá jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum flokks­ins,“ skrif­ar Natan og vís­ar þar til orða Bene­dikts sem seg­ist ekki hafa viljað taka annað sæti á lista flokks­ins þar sem upp­still­ing­ar­nefnd vildi ekki biðja hann af­sök­un­ar á að hafa upp­haf­lega boðið hon­um neðsta sæti list­ans.

Þá bæt­ir Natan við að þegar til­laga um próf­kjör var bor­in upp í Reykja­vík­ur­ráði flokks­ins hafi hún fengið dræm­ar und­ir­tekt­ir.

„Allt ferlið fór eft­ir þeim lýðræðis­legu leik­regl­um sem flokk­ur­inn setti sér við stofn­un og Bene­dikt er einn af aðal­höf­und­um að.“

mbl.is