Sögumaður í vasanum sem þekkir hverja þúfu

Karl Thoroddsen setti appið Kringum í loftið á dögunum.
Karl Thoroddsen setti appið Kringum í loftið á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Appið Kringum fór í loftið á dögunum. Í appinu er að finna sögur, frásagnir og þjóðsögur víðsvefar um landið. Maðurinn á bakvið appið er Karl Thoroddsen en hann vinnur við hugbúnaðargerð og er mikill áhugamaður um sagnfræði. 

Karl hefur unnið að gerð appsins undanfarið árið og safnaði öllum upplýsingum fyrir appið sjálfur en hann notaðist við upplýsingar frá Ferðamálastofu, Landmælingum, tímaritsgreinum, þjóðsögum Jóns Árnasonar og Öldinni okkar. 

„Appið er eins og rauntíma sögumaður sem sýnir þér hvað er í kringum þig á þeim stað sem þú ert. Ég er nokkuð viss um að þetta sé einstakt á heimsvísu að svona magn sagnaupplýsinga sé aðgengilegt fyrir ferðalanga á einum stað,“ segir Karl. 

„Þegar ég hef ferðast um landið þá hef ég ávallt óskað þess að hafa við hliðina á mér hóp af sérfræðingum sem gætu sagt mér allar sögurnar og fróðleikinn sem leynist nágrenninu. Ég ákvað því einn daginn að slá bara til og byrja að safna þessum upplýsingum í gagnagrunn. Fróðleikurinn er nægur, það vantaði bara að staðsetja alla staðina og sögurnar og gera þær aðgengilegar í appi,“ segir Karl. 

„Eins og allt saman þá er þetta vanalega bara spurning um að byrja og vona að áhuginn dragi þig á leiðarenda. Ég var það heppinn að hafa ágæta reynslu af forritun smáforrita og gagnagrunna þannig að hugbúnaðarvinnan tók skemmri tíma en ég bjóst við,“ segir Karl. 

Appið notar ekki nettengingu og því er hægt að nota appið þar sem ekkert netsamband er. „Kringum virkar líka þannig að einungis sést það sem er í þínu nágrenni. Þú getur ekki séð áhugaverðar þjóðsögur sem gerast nálægt Seyðisfirði án þess að ferðast til Seyðisfjarðar. Sögurnar lifna einungis við í appinu þegar þú ert í umhverfi sagnanna sjálfra,“ segir Karl. 

Karl stefnir að því að skella sér hringinn í kringum landið í sumar ásamt fjölskyldunni og safna fleiri sögum til að bæta í appið. Það er þó ekki eins og sögurnar séu fáar, yfir 10 þúsund sögur er að finna þar nú þegar og þurfa ferðaþyrstir aðeins að sækja sér appið og skella sér af stað. 

Appið er aðgengilegt fyrir Apple og Android

Appið virkar eins og lítil fjölfróður sögumaður.
Appið virkar eins og lítil fjölfróður sögumaður. Ljósmynd/Aðsend
Yfir 10.000 sögur er að finna í appinu.
Yfir 10.000 sögur er að finna í appinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is