Byggðu pall 2019 og eru nú með pítsuhorn í garðinum

Berglind Hreiðarsdóttir er með pizzaofn á pallinum heima hjá sér.
Berglind Hreiðarsdóttir er með pizzaofn á pallinum heima hjá sér. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Berglind Hreiðarsdóttir hefur dundað sér í eldhúsinu, bakað og skreytt kökur frá því hún man eftir sér. Hún á dásamlega fallegan garð og pall sem marga dreymir um að eiga. Síðasta viðbótin við pallinn er huggulegt pítsuhorn þar sem hún gerir girnilegar pítsur eins og þær sem fólk kaupir á góðum veitingastað. 

Hún er listamaður í matseld. Hún er einnig sérfræðingur í að gera fallegt í kringum sig og fjölskyldu sína.

Hún og maður hennar, Hermann Reynir Hermannsson, gerðu pall við húsið árið 2019 og hafa þau verið í stöðugum endurbótum. Síðan þá hafa þau fundið nýja hluti til að setja á pallinn.

„Það eru algjör forréttindi að hafa gott útisvæði og þá sérstaklega þegar sumarið er gott. Ostabakki og freyðivín úti við pottinn er dæmi um lúxus sem við getum átt hér á Íslandi. Pallurinn okkar er í raun stækkuð borðstofa, stofa og útieldhús ef svo mætti að orði komast. Við erum með fallegt kolagrill frá Weber sem ég mæli með fyrir alla. Það var draumur hjá okkur lengi að fá okkur heitan pott. Eftir vangaveltur fengum við okkur Queen-skel frá Heitirpottar.is.“

Pizzaofninn er staðsettur í fallegu eldhúsi á pallinum. Þar má …
Pizzaofninn er staðsettur í fallegu eldhúsi á pallinum. Þar má finna marmaraplötu, drykki og fleira sem þarf til. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Pítsuhornið það nýjasta á pallinum

Hvað með blómin á pallinum?

„Falleg blóm eru góð fyrir sálina hvort sem þau eru inni eða úti. Við erum með alls konar blóm en einnig fallega blómapotta, viðardrumba og seríur, sem gerir mikið fyrir útisvæðið.“

Eftir að Berglind fór að fá áhuga á pítsugerð gat hún ekki náð þeirri hugmynd úr kollinum að útbúa eldunaraðstöðu fyrir þannig matseld við heimili sitt.

„Það jafnast ekkert á við pítsuhornið okkar fallega. Ég fór að fá áhuga á pítsugerð og áður en ég vissi af var ég búin að horfa á ansi mörg YouTube-myndbönd, komin í ýmis pítsusamfélög á Facebook, bæði hér heima og erlendis, farin að kynna mér hveiti sem væri heppilegra til pítsubaksturs og gat hreinlega ekki náð hugmyndinni um pítsuhorn úr höfði mínu. Hemmi minn hefur útfært allar hugmyndir pallsins og lét ekki sitt eftir liggja þegar kom að horninu.

Ég fór í Garðheima og keypti alls konar plöntur og punterí; bjórkassa, viskastykki, kryddplöntur... Ég fann grátt marmarabretti og draumasvuntuna mína í Húsgagnahöllinni og svo má ekki gleyma lýsingunni, sem gerir mikið fyrir útisvæði.“

Blómin á pallinum eru falleg og kryddjurtirnar í eldhúsinu ómissandi.
Blómin á pallinum eru falleg og kryddjurtirnar í eldhúsinu ómissandi.

Pítsur eins og af góðum veitingastað

Hvernig er að vera með pítsuofn?

„Ég mæli með því fyrir alla. Við erum hæstánægð með okkar sem nefnist Ooni Karu og festum við kaup á honum þar sem við vildum hafa möguleika á að prófa að eldbaka pítsur á kolum með viðarpallettum þegar við vildum. Gaskúturinn er hins vegar í hillunni undir borðinu. Ofninn setjum við inn í skúr yfir vetrarmánuðina en á sumrin dugar að setja á hann ábreiðslu.“

Hvernig verða pítsurnar?

„Þær verða eins og frá pítsustað og er mikil stemning í kringum baksturinn. Öll fjölskyldan tekur þátt í því og ég er búin að þróa frábæra uppskrift að pítsubotni sem mig langar að deila með ykkur.“

Það er auðvelt að umpotta fallegum blómum út á palli. …
Það er auðvelt að umpotta fallegum blómum út á palli. Á vorin má setja falleg blóm og síðan á haustin er betra að hafa harðgerðari plöntur í pottum.

Ein með öllu – pítsubotnar

Uppskriftin dugar í 5 litlar pítsur (um 10-12")

660 g afPolselli 00-hveiti

400 ml volgt vatn

2 teskeiðar salt

1 pakki þurrger (11,8 g)

2 matskeiðar virgin-ólífuolía

Setjið þurrefnin í hrærivélarskál og festið krókinn á (þetta deig má einnig hnoða saman í höndunum en þá þarf að gera stóra holu í þurrefnahrúguna og blanda vatni og olíu saman við í nokkrum skömmtum).

Blandið þurrefnunum saman og hellið vatni og ólífuolíu saman við og hnoðið í nokkrar mínútur.

Penslið stóra skál með matarolíu, veltið deigkúlunni upp úr olíunni, plastið skálina og leyfið að hefast í 1½-2 klukkustundir.

Skiptið niður í fimm hluta, setjið álegg á hvern botn og bakið við 220°C í 13-15 mínútur.

Athugið að hægt er að gera deigið daginn áður, skipta í fimm kúlur, hjúpa hverja með olíu og setja hverja og eina í sér filmuplast/ziplock-poka og geyma í kæli. Mikilvægt er síðan að leyfa deiginu að ná stofuhita áður en það er teygt út og álegg sett á.

Álegg

Pítsusósa

rifinn ostur

steikt nautahakk

stökkt beikon (niðurskorið)

pepperoni

græn paprika

rauðlaukur

sveppir

piparostur

rjómaostur

ferskt timían

Það jafnast fátt á við kolagrill á pallinn.
Það jafnast fátt á við kolagrill á pallinn. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Potturinn er rúmgóður þar sem búið er að byggja huggulega …
Potturinn er rúmgóður þar sem búið er að byggja huggulega í kringum hann. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljós setja svip sinn á pallinn á kvöldin.
Ljós setja svip sinn á pallinn á kvöldin. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Rautt ljós frá hitalampa gefur fallegan lit á pallinn.
Rautt ljós frá hitalampa gefur fallegan lit á pallinn. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: