Lögreglan og sérsveit eltu uppi bátsþjóf

Tókst að hafa hendur í hári bátaþjófsins með hjálp Hjálparsveit …
Tókst að hafa hendur í hári bátaþjófsins með hjálp Hjálparsveit skáta í Kópavogi. mbl.is/Styrmir Kári

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst á fjórða tímanum tilkynning um að maður hefði tekið bát ófrjálsri hendi í Kópavogshöfn og siglt honum út úr höfninni í átt að Álftanesi, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Haft var samband við Hjálparsveit skáta í Kópavogi sem er með aðstöðu við höfnina og fengu lögreglumenn far með björgunarbát félagsins út fyrir Álftanes. Þá fóru einnig menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni á bátum til aðstoðar.

Báturinn fannst skömmu seinna og tókst lögreglumönnum að handsama manninn sem var einn um borð í bátnum. Hann var fluttur í land og verður yfirheyrður í kvöld.

mbl.is