Fyrsta flugvél hins nýstofnaða flugfélags Play mun fljúga lágflug yfir höfuðborgarsvæðinu síðdegis í dag, áður en hún lendir í fyrsta sinn á Keflavíkurflugvelli, tilbúin til notkunar.
Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun því gefast kostur á því milli klukkan 15 og 16 í dag að berja vél Play augum í jómfrúrferð sinni til Íslands.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. „Hún lætur eitthvað sjá sig hérna yfir bænum núna síðdegis áður en hún lendir,“ segir Birgir.
Vélin er lögð af stað frá Texas í Bandaríkjunum þar sem verið var að mála hana í einkennislitum Play. Birgir segir að vélin hafði þurft að stoppa í Bangor-borg í Maine til þess að taka eldsneyti, áður en hún hóf sig til lofts að nýju á leið sinni til Keflavíkur.