Rúnar Örn Ágústsson og Ágústa Björnsdóttir, bæði í Tindi, tóku í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn í tímatöku í hjólreiðum. Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Ágústu í greininni en annar titillinn hjá Rúnari.
Í ár fór Íslandsmótið fram á Suðurstrandarvegi, en farið var frá Þorlákshöfn 11 km leið í vestur og snúið þar við og farið til baka. Um er að ræða svo gott sem flata braut, en uppsöfnuð hækkun er ekki nema um 25 metrar á þessum 22 km.
Þetta var fyrsta mótið hjá Ágústu eftir að hún brotnaði á olnboga fyrir mánuði síðan. Það virðist ekki hafa komið að sök, en Ágústa fór brautina á 34:14 og var 21 sekúndu á undan Margréti Pálsdóttur í Breiðabliki, sem varð í öðru sæti. Rannveig Anna Guicharnaud í Tindi varð svo í þriðja sæti, 40 sekúndum á eftir Ágústu.
Ágústa hefur tekið Íslandsmeistaratitilinn árin 2017, 2019, 2020 og nú í fjórða skiptið í ár. Þá var hún í öðru sæti árið 2018.
Rúnar hefur undanfarin ár einnig verið meðal þeirra sterkustu í tímatöku hér á landi, en hann á að baki Íslandsmeistaratitilinn árið 2018. Þá var hann í öðru sæti árin 2017, 2019 og 2020.
Rúnar fór brautina í ár á 28:37, en Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki, sem var ríkjandi Íslandsmeistari, varð annar 30 sekúndum á eftir Rúnari. Hákon Hrafn Sigurðsson, einnig úr Breiðabliki, varð svo þriðji 39 sekúndum á eftir Rúnari.
Kristinn Jónsson í HFR varð Íslandsmeistari karla í U23 og Elín Kolfinna Árnadóttir í Breiðabliki varð Íslandsmeistari kvenna í U23. Davíð Jónsson úr HFR varð Íslandsmeistari í U18 karla og Bergdís Eva Sveinsdóttir í U18 kvenna. Ísak Gunnlaugsson úr HFR varð Íslandsmeistari drengja í U15.
Tímataka er ein af sjö greinum hjólreiða þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitil, en hver keppandi hjólar einn í brautinni, öfugt við hefðbundnar götuhjólreiðar þar sem að mestu er hjólað í hópi. Sigurvegarinn er sá sem fer brautina á sem stystum tíma.