Er Vilhelm Þorsteinsson EA kom til löndunar í Neskaupstað á miðvikudag var það í fyrsta sinn sem skipið landaði hér á landi. Kom skipið, sem er nýjasta skipið í flota Samherja, með 2.685 tonn af kolmunna eftir að hafa verið að veiðum í færeysku lögsögunni.
Þá segir í færslu á vef Síldarvinnslunnar að skip Samherja væri það þriðja á sem landar kolmunna í bænum á skömmum tíma og var landað úr Beiti NK og Berki NK á þriðjudag. Var Beitir með 900 tonn en Börkur með 700 tonn og var aflinn úr íslensku lögsögunni.
Síðustu daga hefur verið unnið að því að gera uppsjávarskip Síldarvinnslunnar tilbúin fyrir makrílvertíðina, að því er fram kemur í færslu fyrirtækisins. Þar segir að Beitir og Börkur séu tilbúnir til veiða en Bjarni Ólafsson AK er í slipp á Akureyri og verður tilbúinn til veiða um þarnæstu helgi. Þá er Polar Amaroq enn í slipp í Hafnarfirði og verður skipið líklega ekki tilbúið til veiða fyrr en um mánaðamót.
Nokkur skip hafa skimað fyrir makríl í íslensku lögsögunni en ekki hefur sést til hans enn sem komið er.