Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hefur beðist afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins á háttsemi þess í Namibíu. Afsökunarbeiðnin birtist í auglýsingu Samherja í Morgunblaðinu í dag.
„Það er eindregin afstaða mín og Samherja að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á okkar vegum eða starfsmanna þeirra ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt. Engu að síður ber ég sem æðsti stjórnandi Samherja ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast. Hefur það valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, vinum, fjölskyldum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víðar í samfélaginu. Mér þykir mjög leitt að svo hafi farið og bið ég alla þá sem hlut eiga að máli, einlæglega afsökunar á mistökum okkar, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins. Nú reynir á að tryggja að ekkert þessu líkt endurtaki sig, við munum sannarlega kappkosta að svo verði,“ segir Þorsteinn Már í frekari yfirlýsingu á vefsíðu Samherja.
Í yfirlýsingunni er jafnframt farið yfir niðurstöður lögmannsstofunnar Wikborg Rein vegna málsins.
Helstu álitaefnin í skýrslu Wikborg Rein varða samskipti um veiðiréttindi sem aflað var með samningum við namibíska ríkisfyrirtækið Fischor og við félagið Namgomar Namibia sem réð yfir aflaheimildum á grundvelli tvíhliða samninga stjórnvalda í Namibíu og Angóla.