Flugfélagið PLAY ætlar að hefja flug til Kanarí í desember á þessu ári. Flogið verður einu sinni í viku á miðvikudögum til 13. apríl 2022.
Kanaríeyjar hafa verið vinsæll áfangastaður Íslendinga undanfarin ár, ekki síst á veturna. PLAY mun áfram bjóða upp á ferðir til Tenerife, sem einnig tilheyrir Kanaríeyjaklasanum.
Á morgun fer fyrsta flug PLAY í loftið og er förinni heitið til London. „Þetta er áfangi sem starfsmenn PLAY hafa lengi beðið eftir og mikil vinna, elja og þrautseigja að baki því að komast loksins í loftið,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, í tilkynningu.