Fyrsta áætlunarflug flugfélagsins Play tók af stað í dag með um 100 farþega. Fimm manna sérvalið flugliðateymi sér um farþegana sem allir voru mjög spenntir að komast til London eftir langan tíma án ferðalaga. Play mun ráða fleiri í haust.
Jónína Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs sagði að ráðningar og undirbúningur hafi gengið mjög vel en búið sé að ráða nánast alla sem áætlað er að ráða fyrir sumarið. Í haust mun flugfélagið svo bæta við sig fleiri flugliðum, en það er hugtakið sem Play kýs að nota yfir flugfreyjur og flugþjóna.
„Þau sem fara í þessu fyrsta flugi eru öll reynslumikil og hafa öll verið yfirflugliðar. Það var erfitt að velja áhöfnina fyrir þetta fyrsta flug enda höfum við getað ráðið alveg frábært fólk,“ sagði Jónína. Samkvæmt henni bárust flugfélaginu um 1500 umsóknir en aðeins var hægt að ráða í 55 stöður í fyrstu lotunni sem tekur mið af þeim ferðum sem Play hefur á dagskrá fyrir sumarið.
Það var góð stemmning við brottfararhliðið á Keflavíkurflugvelli í dag. Þó venjan sé að boðsgestir fylli jómfrúarferðir flugfélaga þá var það ekki raunin hjá Play heldur var aðeins um borgandi farþega að ræða. Var þeim jafnframt boðið upp á veitingar og fengu að hlíða á ræðu forstjórans þegar hann klippti á borðann og óskaði þeim góðrar ferðar.
Blaðamaður mbl.is náðu tali af nokkrum farþegum. Allir þeir voru á leið í helgarferð til afslöppunar og voru mjög spenntir að fljúga með hinu nýja flugfélagi. Farþegarnir höfðu bókað báðar leiðir með Play.
Eldri hjón höfðu sérstaklega orð á því að þjónusta Play í aðdraganda flugsins væri góð og verðið ekki síðra.
Þá var ungt par sem var mjög hrifið af einkennisklæðnaði Play en þeim fannst hann „nútímalegur og þægilegur fyrir starfsfólkið."
Tveir félagar höfðu það huggulegt með freyðivínsglas í hönd meðan þeir biður eftir að hliðið opnaði. Þeir höfðu beðið lengi eftir að komast til London í skemmtiferð en ekki ferðast neitt síðastliðin tvö ár.
Reyndar eru næturklúbbar Lundúna nú lokaðir vegna seinkunar á tilslökunum sóttvarnaraðgerða þar í landi. Þeir sögðu það bara verða til þess að þeir yrðu að vakna fyrr og njóta þess að versla, slaka á, fara á krár og fótboltaleiki.