Áttföld eftirspurn í hlutafjárútboði Play

Þota Play í flugtaki.
Þota Play í flugtaki. mbl.is/Unnur Karen

Alls bárust um 4.600 áskriftir í hlutafjárútboði flugfélagsins Play, sem lauk klukkan 16 í dag. Áskriftirnar hljóða samtals upp á 33,8 milljarða króna.

Markmið félagsins var að safna fjórum milljörðum króna með hlutafjárútboðinu. Því er ljóst að spurn eftir bréfum í félaginu var nærri áttföld á við það sem óskað var eftir.

Tvær tilboðsbækur voru í boði og voru ólík­ar hvað varðar stærð áskrifta og út­hlut­un. Verð í áskrift­ar­leið A nam 18 krónum á ​hlut og verð í áskrift­ar­leið B var inn­an verðbils­ins 18-20 krónur á hlut.

Mun yfirfara áskriftirnar

Áskriftir bárust fyrir 6,7 milljarða í gegnum áskriftarleið A og rúma 27 milljarða í gegnum áskriftarleið B. Endanlegt verð í þeirri tilboðsbók var 20 krónur á hlut.

Stjórn Play mun nú yfirfara þær áskriftir sem bárust í útboðinu og taka afstöðu til þeirra. Áætlað er að niðurstaða varðandi úthlutun liggi fyrir eigi síðar en í lok dags 28. júní, að því er segir í tilkynningu á vef Arctica Finance.

Upplýsingar um úthlutun verða aðgengilegar í útboðskerfinu sem hægt verður að nálgast í gegnum vefsíðu Arctica Finance, www.arctica.is/play, með því að nota sömu aðgangsauðkenni og notuð voru við skráningu áskrifta í útboðinu.

Áætlað er að gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu verði mánudaginn 5. júlí og er áætlað að afhenda áskrifendum hluti í Play eigi síðar en 9. júlí 2021 að undangenginni greiðslu.

mbl.is