Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist þakklátur og glaður með niðurstöðu hlutafjárútboðsins sem lauk í dag. „Við erum náttúrulega bara auðmjúk, sérstaklega í ljósi þess hve mikill fjöldi einstaklinga er að fjárfesta.“
Útboðinu lauk klukkan fjögur síðdegis. Eins og mbl.is greindi frá var áttföld eftirspurn miðað við það markmið sem sett var í útboðinu. Stefnt var að því að safna fjórum milljörðum króna en heildaráskriftir hljóðuðu upp á 33,8 milljarða króna.
Birgir segir í samtali við mbl.is að þetta endurspegli stuðning almennings við félagið.
„Þetta sýnir okkur að það eru gríðarlega góðar viðtökur hjá almenningi. Við vorum svo sem búin að merkja það á miðasölunni en það er ekki verra að sjá það líka á því að almenningur vilji fjárfesta í félaginu.“
Blásið hefur um félagið að undanförnu og verkalýðsforingjar til að mynda gagnrýnt kjaramál félagsins harðlega. Spurður hvort þetta sé ekki ánægjuleg niðurstaða í ljósi framangreindrar gagnrýni segir Birgir:
„Við höfum bara getað lagt fram allar upplýsingar. Það er kosturinn við þetta skráningarferli, öll gögn eru lögð á borðið og fólk hefur bara getað lesið sér til um og kynnt sér þessi mál, það er kjaramálin og fleira, og tekið síðan eigin ákvörðun.
Það er greinilega mikil trú á okkur og við erum bara full þakklætis og auðmýkt.“