Hoffell SU-80, sem Loðnuvinnslan gerir út, er á leið til hafnar á Fáskrúðsfirði frá Síldarsmugunni með 750 tonn af makríl. Á vef fyrirtækisins er fullyrt að um stóran fisk sé að ræða eða um 450 grömm.
Gert er ráð fyrir að landað verði seint í kvöld eða um miðnætti. Í fyrra var fyrsta löndun Hoffells á makrílvertíð 8. júlí og því ljóst að makrílveiðarnar fara nokkuð fyrr af stað hjá skipinu.