Að lokinni sjöundu viku strandveiðanna var búið að veiða 5.258.844 kíló sem er 45,96% af þeim 11 þúsund tonna afla sem veiðunum hefur verið ráðstafað í sumar. Í heild hefur 664 bátum verið veitt strandveiðileyfi.
Fram kemur á vef Fiskistofu að í sjöundu viku strandveiðanna lönduðu 147 bátar afla umfram leyfilegan hámarksafla hverrar veiðiferðar, sem nemur 650 kílóum af slægðum afla í þorskígildum. Heildarmagnið nam 4.982 kílóum.
Samkvæmt tölum, sem birtar hafa verið af Fiskistofu með fyrirvara um að skráningu afla sé lokið, var mesta umframaflanum landað á svæði A, næstmest en þó mun minna á svæði D, næst á eftir svæði C og að lokum minnst á svæði B. Þessi skipting rímar vel við dreifingu á umfangi strandveiðanna.
Ber að taka fram að tölur um umframafla eiga það til að taka nokkrum breytingum frá birtingu þeirra eins og fram kom í umfjöllun 200 mílna í maí er báturinn Kaja ÞH var ranglega sakaður um að hafa landað yfir 800 kílóum umfram leyfilegt hámark í annarri viku veiðanna.