Þrjú ný björgunarskip væntanleg

Útlitsmynd af nýjum björgunarskipum.
Útlitsmynd af nýjum björgunarskipum. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Slysavarnafélagið Landsbjörg mun endurnýja hluta skipaflota síns en félagið samdi nýlega við finnsku skipasmíðastöðina KewaTec í Finnlandi um smíði á þremur nýjum björgunarskipum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Landsbjargar.

Stefnt er á að öll þrjú skipin verði komin í notkun um mitt ár 2023 en afhending á fyrsta björgunarskipinu á að fara fram í lok júní 2022.

Íslensku björgunarskipin með hærri meðalaldur

Nýju skipin munu leysa af hólmi eldri skip Landsbjargar en félagið heldur úti 13 björgunarskipum víðs vegar um landið í samstarfi við björgunarsveitir. Meðalaldur skipaflotans er nú tæplega 35 ár sem er mun hærra en á hinum Norðurlöndunum en þar er miðað við að björgunarskip verði ekki eldri en 25 ára.

Endurnýjun þriggja skipanna hleypur á 855 milljónum króna en ríkið mun koma til móts við Slysavarnafélagið og björgunarsveitirnar með kostnaðinn. Alls er stefnt á að endurnýja 10 skip í flotanum á næstu árum og mun ríkið einnig aðstoða við að fjármagna næstu sjö.

mbl.is

Bloggað um fréttina