Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa og netöryggissveitin (CERT-IS), landskjörstjórn og Persónuvernd hafa stofnað samráðshóp um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga. Þetta er gert vegna fyrirhugaðra þingkosninga sem fara fram 25. september.
Meginmarkmið samráðshópsins er að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fái viðeigandi upplýsingar um atriði sem geri þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið er, ef metið er að uppi séu aðstæður sem viðeigandi stjórnvöld þurfi að bregðast við. Hugsanlegar ógnir við framkvæmd kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi eða þjóðaröryggi, að því er segir á vef Fjarskiptastofu.
Þá segir, að tillögu að stofnun samráðshópsins megi rekja til bréfs Persónuverndar frá 18. janúar 2019, til forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, þar sem óskað var eftir stofnun samráðsvettvangs um vernd einstaklinga í tengslum við kosningar.
„Bréf Persónuverndar var sent í kjölfar s.k. Cambridge Analytica-máls þar sem í ljós kom að fyrirtæki og stjórnmálasamtök höfðu reynt að hafa áhrif á stjórnmálaafstöðu einstaklinga undir annarlegum formerkjum, m.a. með því að nota persónusnið á ógagnsæjan og nærgöngulan hátt. Í kjölfar bréfsins fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við netöryggisráð að fjallað yrði um erindið á vettvangi ráðsins og unnið að þeim ráðstöfunum sem líklegastar væru til árangurs í því augnamiði að tryggja örugga framkvæmd kosninga að þessu leyti,“ að því er segir í tilkynningunni.