Verslanir Bónuss og Hagkaups munu frá og með deginum í dag, 3. júlí, hætta að selja lífræna plastburðarpoka á kassasvæði í verslunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum.
Ný lög sem byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins girða fyrir það að verslanir megi hafa niðurbrjótanlega burðarpoka til sölu á afgreiðslusvæðum sínum.
Þá tók bann við að setja tilteknar algengar einnota vörur úr plasti á markað gildi í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
„Meðal vara sem bannað er að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, plasthnífapör og -diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti eru einnig óheimil. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu.
Áfram verður hægt að kaupa lífræna plastburðarpoka í verslunum Bónuss og Hagkaups en þeir verða ekki á afgreiðslukössum heldur inni í verslun. Því er mikilvægt fyrir viðskiptavini verslana að muna eftir fjölnota innkaupapokum í verslunarferðum.
„Viðskiptavinir verslana Bónuss og Hagkaups koma mjög margir með fjölnota poka í verslun eða kaupa fjölnota poka. Hins vegar eru ennþá margir sem kaupa lífræna niðurbrjótanlega burðarpoka á kassasvæði. Við hvetjum viðskiptavini okkar til þess að finna sér eftirminnilega leið við að taka fjölnota poka með í verslunarferðina. Það tekur nokkur skipti að breyta hegðun en þegar búið er að endurtaka hegðunina nokkrum sinnum er líklegt að hún festi sig í sessi. Kannski mætti segja að þetta sé eins og að æfa gamlan lagstúf; bara að reyna að endurtaka hann nógu oft þá man maður hann. Munum eftir fjölnota,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, í fréttatilkynningu.