Marel hefur undirritað samning um kaup á Völku ehf.
Stefnir Marel á kaup á 100% hlut í Völku en yfir 90% hluthafa Völku hafa samþykkt samning um kaupin, er kemur fram í tilkynningu frá Marel.
Eftirstandandi hluthöfum verður boðið að selja sinn hlut á sömu kjörum. Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvörum um samþykki samkeppnisyfirvalda en gert er ráð fyrir að kaupin gangi í gegn síðar á árinu.
Kaupverðið er greitt 50% með reiðufé og 50% í Marel-hlutabréfum, fyrir utan minni hluthafa sem býðst greiðsla með 100% reiðufé. Seljendur sem fá hlutabréf í Marel skuldbinda sig til að eiga þau í 18 mánuði frá kaupunum.
Valka er hátæknifyrirtæki í fiskvinnslulausnum og var stofnað af Helga Hjálmarssyni árið 2003. Félagið hefur verið í samkeppni við Marel í framleiðslu ýmissa fiskvinnsluvéla síðastliðin ár, þar á meðal í vatnsskurðarvélum.