Sjómaður lagði Vátryggingafélag Íslands

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku Vátryggingafélag Íslands til þess að greiða manni bætur úr slysatryggingu vegna slyss sem hann varð fyrir við störf sín á sjó. 

Ágreiningur aðila stóð um hvort sjómaðurinn ætti rétt á bótum úr slysatryggingu sjómanna vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar hann féll niður á leið sinni í vélarrúm skips þar sem hann starfaði, Tjaldi SH-270, í janúar árið 2018. 

Komu samstarfsmenn mannsins að honum vönkuðum og blóðugum í vélarrúmi skipsins. Skipinu var siglt að landi á Rif á Snæfellsnesi og maðurinn fluttur með sjúkrabíl á spítala.

Í sjúkraskrá sjómannsins segir að hann hafi fengið aðsvif í vélarúmi og liðið hafi yfir hann og var maðurinn greindur með brot í hálshrygg og opið sár í hársverði. 

Varanlegar afleiðingar slyssins fólust í áverkum og tognun á hálsi sjómannsins. Varanlegur miski var metinn 5 stig og varanleg örorka 7%.

Töldu ástæðu fallsins yfirlið  

Í maí 2019 höfnuðu Vátryggingar Íslands því að um slys væri að ræða í skilningi skilmála félagsins og að til bótakröfu hefði stofnast við atvikið. Var vísað til þess að sjúkraskrá mannsins bæri það með sér að liðið hefði yfir hann og hefði skyndilegur utanaðkomandi atburður ekki valdið líkamstjóni hans heldur innri orsakir í líkama hans.

Úrskurðarnefnd vátryggingamála staðfesti með úrskurði um málið að maðurinn ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingu sjómanna. 

Í málflutningi sjómannsins er því hafnað að slysið hafi stafað af innri orsökum líkama mannsins heldur hafi verið veltingur á bátnum vegna sjólags. Að óumdeilt sé að um skyndilegan atburð hafi verið að ræða sem olli slysinu og án hans vilja. 

Tekist á um sönnunarbyrði 

Einnig var áhersla lögð á að sönnunarbyrðin fyrir því að fallið hefði orðið vegna líkamlegra kvilla sjómannsins hefði verið á herðum Vátryggingafélagsins. 

Þvert á móti kom fram í málflutningi Vátryggingafélagsins að sönnunarbyrði væri sjómannsins fyrir því að vátryggingaatburður hefði orðið sem félli undir skilmála slysatryggingarinnar og vísað til læknisfræðilegra gagna sem bentu til þess að maðurinn hefði fallið í yfirlið. 

Í niðurstöðu dómsins er rakið að ágreiningslaust sé að sjómaðurinn hafi fallið skyndilega og viljalaust, orðið fyrir meiðslum sem leiddu til varanlegs líkamstjóns. Sömuleiðis er það rakið að vindur var umrætt kvöld um 23 metrar á sekúndu, norðaustanstormur og þungur sjór. 

Ráðið var af dómaframkvæmd að líkamstjón sem rakið er til falls á gólf uppfylli að jafnaði það skilyrði að vera valdið af utanaðkomandi atburði.

Héraðsdómur féllst einnig á að sönnunarbyrði þess fallið orsakaðist að kvilla líkama mannsins væri á herðum Vátryggingafélagsins og taldi dómurinn ekki sýnt fram á slíkt. 

Héraðsdómur dæmdi því svo að réttur sjómannsins til bóta úr slysatryggingu sjómanna skyldi viðurkenndur.  

mbl.is