Félagið Sjálfbært fiskeldi í Eyjum ehf. hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum fyrir eldisstöðvar laxfiska á landi í Vestmannaeyjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skipulagsstofnun. Matsáætlunina má nálgast hér.
Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 26. júlí.
Lárus Ásgeirsson stjórnarmaður sagði í samtali við mbl.is í júní að gert væri ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári, ef nauðsynleg leyfi fáist fyrir þann tíma, og að lax verði settur í stöðina á árinu 2023.
Stefnt er að því að framleiða 10 þúsund tonn á ári en að framkvæmdin verði áfangaskipt. Fyrst verði byggt upp til framleiðslu á fimm þúsund tonnum og annað eins verði í síðari áfanga.
Hagstæður hiti sjávar við Vestmannaeyjar skapar góðar aðstæður til að ala lax í kerum á landi. Hópur fjárfesta hefur gert samkomulag við Vestmannaeyjabæ um að fá úthlutaðri lóð í Viðlagafjöru á svokölluðu Nýjahrauni fyrir landeldisstöð.