Hlutabréfaverð hins nýstofnaða flugfélags Play hækkaði um 41% í fyrstu viðskiptum dagsins. Það er miðað við útboðsgengið 18 þar sem var meiri þátttaka meðal almennra fjárfesta. Ávöxtun á útboðsgenginu 20, sem vinsælla var með stærri fjárfesta, nemur um 27%.
Play var skráð á First North markað Kauphallarinnar í morgun og fara viðskipti með bréf í félaginu af stað með látum.
Það sem af er degi hafa 292 viðsktipti verið gerð með bréf félagsins og heildarveltan nemur 662 milljónum króna.
Í ræðu sinni við opnun markaða sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play, að hann fyndi til ábyrgðar vegna þess trausts sem félaginu var sýnt í nýafstöðnu hlutafjárútboði. Lagt var upp með að 4 milljarðar myndu safnast í útboðinu en áskriftir bárust að andvirði um 33 milljarða króna.