Trefjar afhenda nýja Cleopötru-50

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afhenti nú á dögunum nýja Cleopötru-50 til útgerðarfélagsins Nygrunn AS í Lofoten í Noregi.

Báturinn er 30 brúttótonn, 15 metrar að lengd og yfirbyggður netabátur. 

Báturinn hlaut sama nafn og útgerðin Nygrunn. Eigendur útgerðarinnar eru bræðurnir Ørjan og Ketil Sandnes.

Báturinn leysir af hólmi eldri eikarbát útgerðarinnar sem byggður var í kringum 1970 og hefur þjónað útgerðinni í þrjá ættliði allar götur síðan er kemur fram í tilkynningu frá Trefjum. 

Í lýsingu bátsins segir að rými sé fyrir allt að 43 460 lítra kör í lest bátsins. Stakkageymsla sé upphituð, og rúmgóður borðsalur í brúnni. Í lúkar er svefnpláss fyrir sex í þremur klefum auk góðrar eldunaraðstöðu.

Búinn til lengri útiveru 

Í samtali við 200 mílur segir Högni Bergþórsson, tæknilegur framkvæmdastjóri Trefja, að báturinn sé útbúinn til lengri útiveru ef þörf krefur og að aðbúnaður um borð sé í takt við það. 

Í Noregi færa bátar af þessari gerð sig gjarnan til á vertíðinni og fylgja fiskgöngum eftir.  Stunda þar af leiðandi veiðar langt frá heimahöfn í vikur, jafnvel mánuði, ólíkt því sem oftast er á Íslandi.

Þá þurfa skipverjar „að búa í bátnum“ ef svo má segja. Þannig er mikilvægt að vistarverur, eldunarútbúnaður og allt sé sem best úr garði gert fyrir áhöfn,“ segir Högni.  

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan 4V222, 800 hestöfl (22 lítra), tengd frístandandi ZF 665 V-gír. Tvær rafstöðvar eru um borð af gerðinni Scam frá Ásafli.

Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni JRC, Simrad og Olex frá Noregi.

Báturinn er einnig búinn vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins. Báturinn er útbúinn til netaveiða. Netabúnaður og vinnslubúnaður á dekki kemur frá Noregi.

Annar búnaður á dekki er frá Stálorku. Í bátnum er ARG250-stöðugleikabúnaður. Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

mbl.is