Svokallað VIP-tjaldsvæði sem hefur staðið opið yfir verslunarmannahelgar í Heimaey undanfarin ár stendur þjóðhátíðargestum ekki til boða á Þjóðhátíð í sumar. Gestir þurfa þó ekki að örvænta en nýtt og stærra tjaldsvæði mun opna og er það staðsett nær dalnum, eða öllu heldur á golfvellinum við Herjólfsdal.
Að sögn Harðar Orra Grettissonar, formanns þjóðhátíðarnefndar, kom gamla VIP-tjaldsvæðið ekki til greina í ár af sökum uppbyggingar á svæðinu en byggja á nú íbúðir þar sem hluti þjóhátíðargesta var vanur að reisa tjöld sín.
Fyrirtækið Rent-A-Tent hefur undanfarin ár verið með hluta golfvallarins til afnota undir tjaldsvæði sitt sem er staðsett við innganginn á hátíðina. Hefur ÍBV nú verið í samstarfi við Rent-A-Tent og Golfklúbb Vestmannaeyja um að opna nýtt tjaldsvæði sem mun einnig vera á hluta golfvallarins.
Mun það verða stærra heldur en gamla VIP-tjaldsvæðið en að sögn Harðar verður sams konar þjónusta þar í boði. Svæðið verður afgirt og vaktað með myndavélum ásamt því að öryggisgæsla mun vera til staðar. Bendir hann þó á að þjóðhátíðargestum standi enn til boða að tjalda gjaldlaust inn í sjálfum Herjólfsdal.
Aðspurður segir Hörður ekki ljóst hvað rukkað verði fyrir helgina en útfærsla tjaldsvæðisins er enn í vinnslu. Verður svo tíminn að leiða í ljós hvort hægt verði að endurtaka leikinn á næsta ári.
„Þetta er til reynslu, við verðum að sjá hvernig umgengnin verður. Þetta verður prufað í ár og svo verður framhaldið metið.“