Leikarinn Jake Gyllenhaal og leikkonan Vanessa Kirby flugu frá Íslandi í morgun. Samkvæmt heimildum DV voru þau hér í eins konar leyniferð að undirbúa tökur á kvikmyndinni Suddenly.
Ekkert sást eða heyrðist til leikaranna á meðan á dvöl þeirra hér á landinu stóð, fyrr en þau sáust á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Kvikmyndin Suddenly verður tekin upp hér á Íslandi að einhverju leyti en framleiðslufyrirtækið Truenorth er á meðal framleiðenda. Tökur eiga að hefjast í haust.
Kirby er hvað þekktust fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndunum Mission Impossible, Fast & Furious og Pieces of Woman. Gyllenhaal hefur farið með hlutverk í stórmyndum á borð við Brokeback Mountain, Nightcrawler, Prisoners og Donnie Darko.
Bæði fóru þau með hlutverk í kvikmyndinni Everest sem Baltasar Kormákur leikstýrði.