Hollywoodstjörnurnar Joshua Jackson og Jodie Turner-Smith gengu í hjónaband árið 2019. Það var ekki Jackson sem fór á skeljarnar heldur Turner-Smith þegar parið var í fríi í Níkaragva.
Dawson Creek-leikarinn greindi frá óvenjulegri verkaskiptingunni í spjallþætti Jimmys Fallons á dögunum. „Hún bað mín á gamlárskvöld. Við vorum í Níkaragva, það var mjög fallegt, ótrúlega rómantískt, við gengum á ströndinni og hún bað mig að giftast sér.“
Hefðin er að karlmaður beri upp bónorð í gagnkynhneigðu sambandi. Það er smátt og smátt að breytast eins og saga Jacksons og Turner-Smith sýnir. Jackson vissi ekki að konan hans ætlaði að biðja hans í ferðinni en hann vissi að þetta væri rétt ákvörðun um leið og hún bar upp bónorðið. „Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði Jackson um hjónabandið í þættinum og sýndi hringinn.