Hollywoodstjarnan Kate Beckinsale segist ekki vera á móti fegrunaraðgerðum en sjálf hefur hún ekki gengist undir slíkar aðgerðir. Hin 47 ára gamla leikkona verður pirruð þegar fólk gerir ráð fyrir að hún hafi látið laga hitt og þetta.
Leikkonan sagði í viðtali við Sunday Times um síðustu helgi að hún hefði ekki látið gera neitt við sig. „Ég er ekki á móti því að fólk fari í slíkar aðgerðir. En ég verð pirruð. Það þykir sjálfsagt að ég hafi farið í aðgerð, sem ég hef ekki gert.“
Móðir Beckinsale er á móti fegrunaraðgerðum og fer ekki einu sinni í andlitsbað. Leikkonan telur að hún hafi erft viðhorf móður sinnar til fegrunaraðgerða. „Ég er hrædd við að lamast í andlitinu. Hávær rödd móður minnar er alltaf í höfðinu á mér,“ sagði leikkonan.
Beckinsale hefur aldrei freistast til þess að fá sér fyllingu í andlitið. Hún er hrædd um að ef hún fengi sér bótox í andlitið sæist það á henni og mamma hennar léti hana heyra það. Leikkonan segir 76 ára gamla móður sína líta vel út og svo virðist sem Beckinsale hafi unnið í genalottóinu.