„Ég kem áfram til með að tjá mig“

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vissi svo sem að það gæti brugðið til beggja vona í þessu en þetta er bara lýðræðis­leg niðurstaða og menn hljóta að taka henni,“ seg­ir Þor­steinn Sæ­munds­son innt­ur eft­ir viðbrögðum við niður­stöðum í ráðgef­andi odd­vita­kosn­ingu Miðflokks­ins í Reyka­vík­ur­kjör­dæmi suður.

Í kosn­ing­unni um odd­vita­sætið laut Þor­steinn Sæ­munds­son í lægra haldi fyr­ir Fjólu Hrund Björns­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra þing­flokks Miðflokks­ins. Þau voru þau einu sem gáfu kost á sér í ráðgef­andi kosn­ingu um odd­vita­sæti og hafði Fjóla bet­ur gegn Þor­steini með 58% at­kvæða gegn 42%.

„Ég vissi svo sem ekk­ert al­veg við hverju ég átti að bú­ast en ég er aðallega þakk­lát­ur fyr­ir þann stuðning sem ég fékk,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is.

Aðspurður tel­ur Þor­steinn niður­stöðurn­ar segja lítið um störf hans í stjórn­mál­um. Þær séu aðeins svar við ákalli um fleiri kon­ur. 

„Menn hafa bara verið að hugsa um ásýnd­ar­breyt­ing­ar, að það sé ákall eft­ir kon­um og að það sé ástæðan. Störf mín hafa ekki komið til umræðu neins staðar í þessu ferli, alla vega ekki svo ég muni eft­ir,“ seg­ir hann.

Þá seg­ist Þor­steinn vera sátt­ur við það sem hann hef­ur áorkað í starfi sínu fram að þessu þótt hann hefði viljað fá lengri tíma til að kára ákveðin mál.

„Ég er ágæt­lega sátt­ur við það sem ég er bú­inn að gera en hefði þurft meiri tíma og ég þarf meiri tíma til að klára mál sem ég er bú­inn að vera vinna að og eng­inn mun taka við. Þar á ég sér­stak­lega við um íbúðir sem Íbúðalána­sjóður hirti af fólki. Það þarf ein­hvern veg­inn að leiða það mál til lykta og ég mun reyna að gera það þótt ég verði ekki leng­ur á þingi því það verður ein­hver að gera það.

Ég kem áfram til með að tjá mig um póli­tísk mál og mun berj­ast áfram fyr­ir þeim mál­um sem ég hef haft á minni könnu sem eng­inn ann­ar er lík­leg­ur til að taka að sér,“ seg­ir hann að end­ingu.

mbl.is