Sumarvertíð er hafin á Þórshöfn en Heimaey kom að landi í gærkvöldi með fyrsta makrílfarminn, um þúsund tonn, sem veiddist austarlega í síldarsmugunni.
Nokkuð löng sigling er frá miðunum, um 34 tímar, og þar hefur verið þokusúld svo sólardagur á Þórshöfn var áhöfninni kærkominn.
Veiðin var ekkert sérstök en Sigurður dældi sínum afla yfir í Heimaey og þetta er þokkalegur makríll.
Að sögn Siggeirs Stefánssonar, hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn, hefur mönnun gengið vel og er mikið til sama fólkið og var á vertíðinni í fyrra.
Viðvarandi húsnæðisskortur er á Þórshöfn sem er hamlandi fyrir bæinn að öllu leyti og sést einkum vel þegar vertíð kallar á meiri mannskap sem þarf þak yfir höfuðið.
Sigurður og Álsey eru á miðunum í síldarsmugunni og var Sigurður kominn með um 500 rúmmetra í morgun.