Segir Íslendinga lifa í blekkingu um brottkast

Arthúr Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda.
Arthúr Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfur var ég á togurum Útgerðarfélags Akureyrar til margra ára og það var ekkert smotterí sem fór út um lensportin. Sá „afli“ fór, eftir því sem ég best veit, ekki í skipsbækurnar. Það kann þó að vera verðugt rannsóknarefni hvort í þeim leynast upplýsingar í þessum efnum,“ segir Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, í aðsendri grein í Bændablaðinu.

Í greininni, sem ber yfirskriftina „Að nefna snöru í hengds manns húsi“, fer Arthúr mikinn um kvótakerfið á Íslandi og gagnrýnir allt frá vinnulagi Fiskistofu til rannsókna Hafrannsóknastofnunar. 

Hann segir í greininni að skilaboð stórútgerðarinnar um að kvótakerfið sem er við lýði á Íslandi sé það besta í heimi séu blekking. Að aflamarkskerfi sem byggist á magnbundinni úthlutun ýti undir brottkast. 

Kaldhæðnin ríður ekki við einteyming

Ekki kemur fram í greininni hvaða kerfi hann teldi ákjósanlegra en draga má þá ályktun að það væri eitthvað í líkingu við sóknardagakerfi, þar sem hann bendir á grásleppustofninn. 

Kaldhæðnin ríður ekki við einteyming. Sá stofn sem „stækkaði“ mest á milli áranna 2020/2021 var hrognkelsastofninn – grásleppan. Hún er í sóknarmarki,“ segir Arthúr. 

Hann telur rangt að bjóða hingað fulltrúum annarra þjóða sem eru með sín kerfi í þróun til þess að kenna þeim á fiskveiðistjórnunarhætti okkar. 

Í þessu sambandi rifja ég upp sögu sem mér var sögð fyrir löngu:

Í einu ríkjanna við vesturströnd Afríku var ákveðið að setja á framseljanlegt kvótakerfi í humarveiðum. Veiðarnar fóru og fara væntanlega enn þannig fram að menn vaða út frá ströndinni og kafa eftir bráðinni.
Einn stærsti kvótinn lenti í fangi rakara inni í Mið-Afríku sem aldrei hafði séð sjó. Sjálfsagt var það tilviljun að rakarinn var náfrændi sjávarútvegsráðherrans,“ segir í grein Arthúrs.

mbl.is