Hún rís úr sumarsænum í silkimjúkum blænum með fjöll í feldi grænum, mín fagra Heimaey, segir í þjóðhátíðarlaginu 1951, Heima, einu fallegasta lagi Oddgeirs Kristjánssonar og hjartnæmum texta Ása í Bæ sem lögðu grunninn að að þeirri hefð sem þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja eru. Þessi lýsing átti við í dag þegar Herjólfsdalur hefði að öllu jöfnu iðað af lífi, grænn og fagur og veður eins og best verður á kosið.
Í eðlilegu ástandi hefði þjóðhátíð verið sett klukkan 14.30 í dag með lúðrablæstri, kórsöng, hugvekju og hátíðarræðu að viðstöddum prúðbúnum gestum. Ástandið er ekki eðlilegt en Jarl Sigurgeirsson og hans fólk í Lúðrasveit Vestmannaeyja létu sig ekki vanta í Dalinn og léku nokkur þekkt þjóðhátíðarlög. Nokkur hópur fólks var mættur, kíkti í sjoppurnar um leið og hlýtt var á tónlistina. Fjölskylda stillti upp veisluborði í einni götunni þótt ekkert væri tjaldið. Allt innan marka.