„Við fáum bara eitt tækifæri“

Arinbjörn (t.v.) og Benedikt (t.h.) eru bræður og standa saman …
Arinbjörn (t.v.) og Benedikt (t.h.) eru bræður og standa saman að stofnun Ice Trust.

Bræður, sem báðir eru í doktors­námi í gervi­greind í Bretlandi, vinna nú að því að koma á fót sjálf­seign­ar­stofn­un sem kaup­ir landsvæði í skyni nátt­úru­vernd­ar. Stofn­un­in, sem hef­ur fengið nafnið Ice Trust, mun byggja á fjár­magni frá al­menn­ingi og mun fólk þannig geta keypt lít­inn skika úr hverri jörð, þótt jarðirn­ar verði í eigu sjálf­seign­ar­stofn­un­ar­inn­ar. Mark­miðið er að leyfa ósnort­inni nátt­úru að vera.

Bræðurn­ir heita Ar­in­björn og Bene­dikt og eru Kol­beins­syn­ir. Þeir segja þema verk­efn­is­ins „nátt­úru­vernd í þínu nafni“.

Per­sónu­leg nátt­úru­vernd

„Við vilj­um að fólk fái per­sónu­lega teng­ingu við þá nátt­úru­vernd sem það tek­ur þátt í. Við þurf­um að vernda þessi svæði fyr­ir kom­andi kyn­slóðir, við höf­um tæki­færi núna til þess að gera það á meðan það er enn svona mikið af ósnort­inni nátt­úru á Íslandi, hún kem­ur aldrei aft­ur. Um leið og hún skemm­ist er hún bara far­in. Við fáum bara eitt tæki­færi,“ seg­ir Ar­in­björn um Ice Trust.

„Við vilj­um gera þetta með svo­lítið nýj­um stíl þannig að þeir sem taka þátt í nátt­úru­vernd­inni fá heiður­seign, skika sem þeir geta kallað sinn. Þeir geta ekki gert neitt við hann, skik­inn verður í eigu þess­ar­ar sjálf­seign­ar­stofn­un­ar sem verður stofnuð og mun eiga alla jörðina en það verður skrá yfir það hver er bú­inn að styrkja og hvaða skika viðkom­andi á á jörðinni.“

Bene­dikt seg­ir þá að fólkið sem styrk­ir Ice Trust geti valið sér skika, til dæm­is hluta af fossi, læk eða strönd, og fái ná­kvæm hnit yfir staðsetn­ingu þeirra skika sem það kaup­ir. „Það ger­ir þetta per­sónu­legra.“

Hér má sjá á myndrænan hátt hvernig kaup skika eru …
Hér má sjá á mynd­ræn­an hátt hvernig kaup skika eru hugsuð.

Ætla að sækj­ast eft­ir friðlýs­ing­um

Mark­mið Ice Trust er að kaupa litl­ar og meðal­stór­ar jarðir sem þeim þykir mik­il­vægt að vernda og halda ósnort­inni nátt­úru á. Þeir hyggj­ast ekki kaupa búj­arðir eða sum­ar­bú­staðajarðir, frem­ur jarðir sem lé­legt aðgengi er að og eru ekki nýtt­ar til neins sem stend­ur.

„Það er eng­inn á markaðnum sem er að meta jarðir út frá nátt­úr­unni og bjóða í þær út frá nátt­úru­leg­um verðmæt­um þannig að það er mark­miðið að kaupa þær og sækj­ast svo eft­ir friðlýs­ingu á þeim öll­um um leið og kost­ur er,“ seg­ir Ar­in­björn.

„Ice Trust verður sjálf­seign­ar­stofn­un þannig að jörðin mun eiga sig sjálf í raun og veru. Svo verður Ice Trust með op­in­bera skrá sem held­ur utan um það hver á hvaða skika. Svo höf­um við líka verið að horfa til framtíðar, hvernig við get­um aukið teng­ing­una, t.d. með því að birta reglu­lega mynd­ir af jörðunum svo fólk geti fylgst með skik­un­um sín­um,“ seg­ir Bene­dikt.

Hann bæt­ir því við að mögu­leiki verði á því að kaupa skika í gjaf­ir og verði þeir til dæm­is til­val­in skírn­ar­gjöf þar sem mark­miðið sé að vernda ósnortna nátt­úru fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. 

Eins og áður seg­ir búa bræðurn­ir í Bretlandi. Þeir hafa ferðast mikið um Evr­ópu og átta sig alltaf á því þegar þeir koma til Íslands hve sér­stakt það sé hve mikið sé af ósnort­inni nátt­úru hér.

„Þó að það séu ein­hverj­ir þjóðgarðar úti í Evr­ópu þá er það ekki al­veg á þess­um skala. Þetta er ekki svona ósnortið. Það er alltaf ein­hver slóði eða bygg­ing­ar, raf­magns­staur­ar og svo fram­veg­is,“ seg­ir Bene­dikt.

Bræðurnir eru hrifnir af því hversu mikið er til af …
Bræðurn­ir eru hrifn­ir af því hversu mikið er til af ósnort­inni nátt­úru hér á Íslandi.

Í krafti fjöld­ans

Þegar bræðurn­ir fóru að skoða hvað þeir gætu gert til þess að taka þátt í nátt­úru­vernd á Íslandi fannst þeim vanta mögu­leik­ann á því að gera nátt­úru­vernd­ina per­sónu­lega.

„Eitt­hvað sem fólk get­ur styrkt með inn­an við 10.000 krón­um og fengið eitt­hvað mark­tækt á móti, séð hvað það er virki­lega að vernda,“ seg­ir Ar­in­björn. 

Eins og áður seg­ir hyggj­ast bræðurn­ir kaupa litl­ar og meðal­stór­ar jarðir í krafti hóp­fjár­mögn­un­ar.

„Við vilj­um kaupa jarðir á stöðum sem eru sér­stak­ir og er ekki búið að byggja neitt upp á,“ seg­ir Bene­dikt.

Þá skipt­ir ekki máli að það sé gott aðgengi að jörðunum.

„Jarðir sem er lé­legt aðgengi að og erfitt er að vera með land­búnað á eru ekk­ert ofboðslega dýr­ar en við sjá­um samt mikið virði í ósnort­inni nátt­úru og við vilj­um passa það að hún sé vernduð og friðlýst,“ seg­ir Ar­in­björn.

Bræðurnir vilja með Ice Trust gefa fólki tækifæri á persónulegri …
Bræðurn­ir vilja með Ice Trust gefa fólki tæki­færi á per­sónu­legri nátt­úru­vernd.

Vilja leyfa svæðunum að vera

Eins og áður seg­ir sjá bræðurn­ir fyr­ir sér að sækj­ast eft­ir friðlýs­ing­um á þeim svæðum sem Ice Trust kaup­ir.

„Við erum að horfa til framtíðar vegna þess að von­andi mun Ice Trust lifa leng­ur en við. Við verðum að passa það að það sé allt verndað og það sé ekki aft­ur­kræft, svo sá sem stjórn­ar í framtíðinni geti ekki farið að breyta jörðunum og byggja eitt­hvað á þeim,“ seg­ir Ar­in­björn.

Mark­miðið er að gera ekki neitt við jarðirn­ar í raun og veru.

„Við vilj­um leyfa þess­um svæðum að vera ná­kvæm­lega eins og þau eru,“ seg­ir Bene­dikt. 

 „Svo mun­um við líka vinna með þess­um aðilum og stofn­un­um sem eru að hugsa um nátt­úru­vernd eins og Land­vernd og sjá hvað er hægt að gera til þess að viðhalda þessu. Mark­miðið er að halda þessu ósnortnu,“ seg­ir Ar­in­björn.

Er þetta ekki eitt­hvað sem ætti frek­ar að falla und­ir hlut­verk rík­is­ins?

„Jú, og ríkið er að gera þetta, en á allt öðrum skala, til dæm­is í þjóðgörðunum. En það er tals­vert um litl­ar jarðir sem myndi ekki endi­lega passa að setja heil­an þjóðgarð í kring­um en væri gott að vernda og geyma. Svo er líka ör­ugg­ara að hafa ekki öll egg­in í sömu körfu. Maður veit aldrei hvaða ákv­arðanir stjórn­völd munu taka í framtíðinni. Það þarf bara að klúðra þessu einu sinni og þá kom­umst við aldrei til baka,“ seg­ir Bene­dikt.

Ekki í hagnaðarskyni

Þarf ekki mik­inn fjölda til þess að styðja við verk­efnið svo þetta gangi upp?

„Þetta eru mis­stór­ar jarðir sem við erum að pæla í. Til að byrja með horf­um við á eitt­hvað í minni kant­in­um og jarðir með lé­legu aðgengi eru al­mennt ekki mjög dýr­ar,“ seg­ir Bene­dikt.

Ar­in­björn ít­rek­ar að verk­efnið sé ekki unnið í hagnaðarskyni. „All­ur hagnaður mun fara í það að kaupa næstu jörð og vernda nú­ver­andi jarðir.“

Bræðurn­ir sjá fyr­ir sér að mögu­legt verði fyr­ir þá að nýta þekk­ingu sína á gervi­greind til þess að gera verk­efnið enn meira spenn­andi í framtíðinni. Til dæm­is með því að skila fólki loft­mynd­um af skik­um þess og leyfa fólki að fylgj­ast með nátt­úru­leg­um breyt­ing­um sem verða á land­inu yfir árin.

Nú safna þeir fyr­ir stofn­un sjálf­seign­ar­stofn­un­ar­inn­ar Ice Trust á Karol­ina Fund. Þar geta les­end­ur lagt þeim lið og freistað þess að eign­ast skika af ósnort­inni nátt­úru.

mbl.is