Tónlistarmaðurinn The Weeknd segist vera hálf-edrú eftir að hafa notað hörð fíkniefni og áfengi til að geta tekist á við lífið.
Tónlistarmaðurinn prýðir forsíðu GQ í september. Í viðtalinu segist hann enn reykja gras og drekka áfengi af og til. Annars er hann edrú.
„Ég drekk ekki mikið, ekki jafn mikið og ég gerði. Rómantíkin við að drekka er ekki lengur til staðar,“ sagði The Weeknd.
Hann lýsir því sem svo að hann hafi notað fíkniefnin sem eins konar hækju. „Ég hélt að ég þyrfti þau. Og ég nennti ekki að leggja á mig vinnuna sem þurfti til að komast að því að ég þurfti þau ekki. Ég er búinn að eyða síðustu árum í að átta mig á því að ég þarf ekki fíkniefni og þakka Guði fyrir að ég skuli ekki þurfa þau. Það getur verið mjög erfitt fyrir fólk að hætta. En ég vissi að ég vildi hætta,“ sagði tónlistarmaðurinn.
Ein af ástæðum þess að hann vildi hætta er sú að hann langar til að eignast börn og stofna fjölskyldu. „Ég veit ég segi að ég vilji það ekki, en ég veit að ég vil það. Mig langar í börn. Ég er hrifinn af því á hvaða braut ferill minn er. En mér líður líka eins og barneignir muni hafa mikil og meiri áhrif á mig,“ sagði The Weeknd.