Bandaríska hlaðvarps- og raunveruleikastjarnan Kailyn Lowry greinir frá því í nýjasta hlaðvarpsþættinum sínum Baby Mama No Drama að hún hafi greinst aftur með kórónuveiruna. Í þættinum greinir hún frá því að í fyrra skiptið sem hún fékk veiruna hafi hún verið stödd á Íslandi í febrúar 2020.
Í hlaðvarpsþættinum segir Lowry að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hún fái veiruna og í kjölfarið greinir hún frá því að hún hafi verið sýkt af veirunni á ferðalagi sínu um Ísland í febrúar 2020.
„Ég hef ekki greint frá því áður en ég var með Covid þegar ég var á Íslandi árið 2020. Svo þetta er í annað sinn sem ég fæ veiruna,“ sagði Lowry.
Mbl.is greindi frá því hinn 28. febrúar 2020 að Lowry hefði verið stödd á Íslandi og lent í vandræðum á bílaleigubíl. Í fréttinni segir að hjálpsamir Íslendingar hafi aðstoðað hana við að losa bifreiðina og tekur hún fram að þvílík hjálpsemi tíðkist ekki í sínu heimalandi.
Fyrsta innanlandssmitið á Íslandi greindist þennan sama dag, 28. febrúar. Ef Lowry greinir rétt frá er hún líklega á meðal þeirra fyrstu sem smituðust á Íslandi í faraldrinum.