Nýr búnaður bæti öryggi

Karl Guðmundsson skipstjóri á Brúarfossi tók við búnaðinum fyrir hönd …
Karl Guðmundsson skipstjóri á Brúarfossi tók við búnaðinum fyrir hönd Eimskips frá Einari Gylfa Haraldssyni framkvæmdastjóra Viking-Life á Íslandi. Ljósmynd/Eimskip

Eimskip fékk nýverið afhentan nýjan slökkvibúnað sem ætlað er að slökkva elda í gámum og segir Karl Guðmundsson, skipstjóri á Brúarfossi, mikilvægt að búa yfir búnaði sem gerir áhöfn kleift að bregðast snöggt og örugglega við ef eldur kviknar um borð.

Búnaðurinn sem um ræðir nefnist Hydro-Pen og segir á vef Eimskips að þegar grunur vaknar um eld í gámi sé hann tengdur brunaslöngu skipsins og hengdur utan á gáminn. Þegar þrýstingi er hleypt á tækið borar það sig í gegnum síðu gámsins og hefst inndæling slökkvimiðils um leið og borinn nær í gegn.

Tækið borar sig inn í gáminn og slekkur síðan eldinn …
Tækið borar sig inn í gáminn og slekkur síðan eldinn í gámnum án þess að hafa áhrif á aðra gáma. Ljósmynd/Viking

Búnaðurinn er til þess fallinn að breyta nálgun þegar gámabruni er um borð í flutningaskipi. Hefðbundið er að berjast við slíka elda með því að dæla vatni á viðeigandi gám auk allra gáma í grennd við hann. Þetta getur valdið skaða í öðrum nærliggjandi gámum. Hydro-Pen-búnaðinn er hægt að festa á hvaða gám sem er þar sem hann er með hækkanlegan festingabúnað.

Aðeins 10 mínútur

Karl tók við búnaðinum fyrir hönd Eimskips frá Einari Gylfa Haraldssyni, framkvæmdastjóra Viking-Life á Íslandi. „Það er fjölbreyttur varningur um borð í skipunum okkar hverju sinni og oft hættuleg efni. Hydro-Pen gefur okkur möguleika á að bregðast hratt og örugglega við ef eitthvað kemur upp á úti á hafi sem skiptir mjög miklu máli fyrir öryggi áhafnar, skips og náttúrunnar en með þessu margföldum við líkurnar á að ná tökum á eldi í gámi. Í stað þess að vera með áhöfnina í langan tíma að gera gat á gám og sprauta vatni inn tekur það nú einungis um tíu mínútur með Hydro-Pen sem minnkar áhættuna til muna og er mikil framför,“ segir hann.

Kaup á búnaðinum eru sögð, í tilkynningu frá Eimskip, vera liður í að tryggja að fyrirtækið sé í fremsta flokki hvað öryggismál varðar og er Hydro-Pen talið auka öryggi áhafna og skipa félagsins. „Áhafnir skipanna munu nú í framhaldi hljóta þjálfun í notkun búnaðarins þar sem skjót viðbrögð geta skipt sköpum í baráttu við eld í gámum,“ segir í tilkynningunni.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina