Slysavarnaskólinn er kominn í Slippinn

Starfsmenn Slippsins hófust strax handa við að botnhreinsa skipið og …
Starfsmenn Slippsins hófust strax handa við að botnhreinsa skipið og búa undir málningu. mbl.is/sisi

Í sumar hefur verið unnið að endurbótum á skólabyggingum víða um landið, þær málaðar og gerðar fínar fyrir vetrarstarfið. Einn skóli hefur algera sérstöðu, Slysvarnaskóli sjómanna í skipinu Sæbjörg. Höfuðstöðvar skólans þarf með reglulega millibili að taka á land til að sinna viðhaldi.

Og á mánudaginn var Sæbjörgin tekin upp í Slippinn í Reykjavík, þar sem skipið verður næstu daga. Að verki loknu fer Sæbjörgin á flot að nýju, nýmáluð og fín. Hún mun fara á sinn fasta stað í Austurhöfn Gömlu hafnarinnar í Reykjavík.

Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn.

Sumarið 1998 gaf ríkisstjórn Íslands Slysavarnafélagi Íslands, nú Slysavarnafélaginu Landsbjörg, ferjuna Akraborg til nota fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna. Skipið var þá að hætta siglingum vegna tilkomu Hvalfjarðarganganna. Margir Íslendingar eiga minningar úr ferðum með Akraborginni milli Reykjavíkur og Akraness.

Var skipinu gefið nafnið Sæbjörg er það var afhent 12. júlí 1998. Eftir breytingar á skipinu fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna hófust fyrstu námskeiðin í nýrri Sæbjörg í október 1998.

Í mörg ár sigldi Sæbjörgin milli helstu verstöðva landsins til námskeiðahalds en svo er ekki lengur. Skipið, sem var smíðað árið 1974, er ekki lengur haffært. Að þessu sinni voru það dráttarbátar Faxaflóahafna sem færðu Sæbjörg frá Austurhöfninni að Slippnum. Þeir munu svo koma henni á sinn stað að slipptöku lokinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: