Strandveiðar bannaðar frá fimmtudegi

Engar strandveiðar verða stundaðar frá og með fimmtudegi að öllu …
Engar strandveiðar verða stundaðar frá og með fimmtudegi að öllu óbreyttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að öllu óbreyttu verða strandveiðar bannaðar frá og með 19. ágúst 2021,“ segir í tilkynningu á vef Fiskistofu, en stutt er í að aflaheimildir sem strandveiðum var ráðstafað klárist. Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur beðið ráðherra að auka heimildirnar en þeirri beiðni hefur verið hafnað.

LS sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréf í síðustu viku þar sem beðið var um að strandveiðum yrði úthlutað frekari aflaheimildum. „Frádregnar aflaheimildir sem fóru á skiptimarkað vegna yfirstandandi fiskveiðiárs hafa verið fullnýttar og því liggur fyrir að ráðuneytið hefur að lögum engar frekari heimildir til að auka við aflaheimildir til strandveiða,“ segir í svari ráðherra sem birt hefur verið á vef LS.

Þá fullyrðir LS að „veiðiheimildir sem Fiskistofa hefur til úthlutunar á byggðakvóta til skipa muni að óbreyttu brenna inni“, og segjast samtökin hafa beðið ráðuneytið að taka málið til umfjöllunar að nýju í ljósi þessa.

Ekkert virðist þó hafa breyst í málinu og birtir Fiskistofa í dag fyrrnefnda tilkynningu á vef sínum um að strandveiðum ljúki á fimmtudag.

mbl.is