Báðu um aðstoð fiskiskipa er samband slitnaði

Þyrla var kölluð út þegar ekki náðist samband við fiskibát. …
Þyrla var kölluð út þegar ekki náðist samband við fiskibát. Myndin er frá þyrluæfingu Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarskipið Hafbjörg voru kölluð út í morgun vegna báts sem datt úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar segir að merki frá fiskibátnum hafi hætt að berast stjórnstöð og hafist handa við að ná sambandi við áhöfn, en án árangurs.

Í ljósi stöðunnar voru áhafnir fiskibáta og togara nálægt því svæði er síðast hafði spurst til bátsins beðnar um að sigla á vettvang. Tókst áhöfn nálægs fiskibáts að ná sambandi við bátinn sem sagður er hafa verið djúpt austur af landinu. Reyndist allt vera eins og skyldi og var þyrlunni snúið við.

„Báturinn var á mörkum langdrægs feril- og fjarskiptakerfisins og við slíkar aðstæður getur það gerst að samband náist ekki. Landhelgisgæslan þakkar fiskiskipaflotanum á svæðinu og áhöfn björgunarskipsins fyrir veitta aðstoð,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is