Báðu um aðstoð fiskiskipa er samband slitnaði

Þyrla var kölluð út þegar ekki náðist samband við fiskibát. …
Þyrla var kölluð út þegar ekki náðist samband við fiskibát. Myndin er frá þyrluæfingu Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar og björg­un­ar­skipið Haf­björg voru kölluð út í morg­un vegna báts sem datt úr sjálf­virkri til­kynn­ing­ar­skyldu, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Land­helg­is­gæsl­unni.

Þar seg­ir að merki frá fiski­bátn­um hafi hætt að ber­ast stjórn­stöð og haf­ist handa við að ná sam­bandi við áhöfn, en án ár­ang­urs.

Í ljósi stöðunn­ar voru áhafn­ir fiski­báta og tog­ara ná­lægt því svæði er síðast hafði spurst til báts­ins beðnar um að sigla á vett­vang. Tókst áhöfn ná­lægs fiski­báts að ná sam­bandi við bát­inn sem sagður er hafa verið djúpt aust­ur af land­inu. Reynd­ist allt vera eins og skyldi og var þyrlunni snúið við.

„Bát­ur­inn var á mörk­um lang­drægs fer­il- og fjar­skipta­kerf­is­ins og við slík­ar aðstæður get­ur það gerst að sam­band ná­ist ekki. Land­helg­is­gæsl­an þakk­ar fiski­skipa­flot­an­um á svæðinu og áhöfn björg­un­ar­skips­ins fyr­ir veitta aðstoð,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

mbl.is