120 nemendum komið fyrir í kjallara og anddyri

Húsakosturinn sem um ræðir í anddyri Víkurinnar.
Húsakosturinn sem um ræðir í anddyri Víkurinnar. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Foreldrafélags Fossvogsskóla segir að upp sé komið neyðarástand í húsnæðismálum 2.-4. bekkjar skólans. Nú sé fyrirhugað að koma minnst 120 börnum fyrir í kjallara og anddyri íþróttahúss Víkings. 

Segir í tilkynningu frá stjórn foreldrafélagsins að slíkt húsnæði sé með öllu óboðlegt sem kennsluhúsnæði. Það sé merki um dómgreindarleysi skólayfirvalda að ákveðið hafi verið að nota húsnæðið undir kennslu barnanna. 

„Mál er að linni. Við skorum á borgaryfirvöld að bregðast við og finna án tafar viðeigandi og heilsusamlegt húsnæði fyrir þessi 7, 8 og 9 ára gömlu börn og kennara þeirra. Ekki má fórna einum einasta skóladegi fyrir vandræðagang og vanhöld borgaryfirvalda í málinu,“ segir í harðorðri yfirlýsingunni.

Sagan endalausa

Mál Fossvogsskóla hefur nú verið í deiglunni síðan að minnsta kosti 2018. Mygla kom upp í húsnæði skólans og erfiðlega hefur gengið að vinna að endurbótum þess og við að koma nemendum skólans í ákjósanlegt húsnæði. 

„Starfsfólk og foreldrar hafa sýnt vanmætti yfirvalda langlundargeð, langt umfram það sem til má ætlast. Enn höggva borgaryfirvöld í sama knérunn og misbjóða umbjóðendum sínum. Kennarar og starfsfólk sem leitað hafa til okkar eru uppgefin og raunveruleg hætta er á að fleiri reynslumiklir starfsmenn yfirgefi skólann en gerðu síðastliðið vor. Foreldrar vilja stöðugleika og námsfrið fyrir börnin og sumir hverjir eru að leita hófanna í öðrum skólum af þeim sökum,“ segir í yfirlýsingu stjórnar foreldrafélagsins. 

Þar að auki kvartar foreldrafélagið undan samráðsleysi við foreldra barna við Fossvogsskóla og starfsfólk skólans. Oftar en ekki séu foreldrar upplýstir um gang mála í fjölmiðlum áður en það er gert í gegnum „klórþvegnar“ fréttatilkynningar borgaryfirvalda. 

„Samstarf við skólasamfélagið er hverfandi nú líkt og oft áður, þrátt fyrir loforð um bót og betrun úr ræðustóli borgarstjórnar.“

mbl.is