Hjörtur Sævar Steinason, strandveiðisjómaður og leikari, veiddi risavaxinn þorsk í handfæri við Súgandafjörð í gær. Þorskurinn var veginn eftir blóðgun og reyndist 22 kíló og segir Hjörtur þorskinn trúlega vera sinn stærsta á strandveiðunum í ár. Báturinn Lára IS-122 er fimmta Láran í lífi Hjartar en hann segir leiklist henta vel með strandveiðum.
Hjörtur lýsti atvikinu sem svo: „Ég var utan í Kvestuhólnum, 19 sjómílum norður af Súganda. Rétt þegar ég var að ljúka veiðum og ljúka sumrinu verð ég var við að ein rúllan lét ekki venjulega heldur eitthvað var öðruvísi. Ýmist slaknaði á færinu eða rúllan ætlaði ekki að ráða við að hífa það sem á endanum var. Og gott fólk lengi var rúllan að hífa og það veit guð og loks löngu dýpra en venjulega birtist mér þessi risa skepna sem vó hvorki meir né minna en 22 kíló.“
Hjörtur segir hafa veiðst vel í sumar: „Þeir hafa verið vænir þarna margir. Venjulegi dagskammturinn er 774 kíló og á góðum degi voru þetta svona 200-300 kíló af fiski sem voru 8 kíló eða þyngri. Þannig það var drjúgur partur af aflanum, þessir stóru fiskar.“
Vertíð Hjartar er á sumrin en á veturna snýr hann í önnur störf: „Það eru bara maí til ágúst, það er vertíðin mín. Síðan er það bara leikaraskapur á veturna.“
Hjörtur sló rækilega í gegn í kvikmyndinni Þorsta eftir Steinþór Hróar Steinþórsson og Gauk Úlfarsson. Þar brá Hjörtur sér í hlutverk aldagamallar samkynhneigðrar vampíru. Hjörtur er hluti af Leikhópnum X sem hefur komið fram í aukahlutverkum í ótal kvikmyndum.
Hjörtur segir fiskirí og leikaraskap vera ágætis blöndu: „Það er það! Ég tók stýrimannaskólann á sínum tíma og var til sjós í 12 ár. Síðan fannst mér ekki vera sjór í mínum æðum svo ég fór í land. Mig hefur samt alltaf langað að fara í strandveiðar og lét svo loksins verða af því eftir mörg ár. Mörg, mörg mörg þúsund ár.“
Hjörtur keypti bátinn Láru ÍS 122 í fyrravor og segir þau ná vel saman: „Lára V er fimmta Láran í mínu lífi. Fyrst kynntist ég konunni minni, hún heitir Lára Ágústa. Síðan tengdamömmu en hún heitir líka Lára Ágústa.
Við Lára eignuðumst síðan dóttur og skírðum hana Lára Ágústa sem eignaðist sjálf dóttur sem heitir Lára Ágústa. Að lokum var það svo Lára V IS-122 sem er þannig fimmta Láran í mínu lífi.“
Þrátt fyrir gott sumar á Láru V segist Hjörtur nú vera að íhuga að selja Láru V og kaupa sér nýja. Hann segist þá frekar ætla að færa nafnið Lára V yfir á þá nýju í stað þess að tala um Láru VI.
„Mig hefur alltaf dreymt um að eignast Sómabát,“ segir Hjörtur sem vonast til þess að afli sumarsins dugi upp í eina Láru enn.