Aðferðafræði við könnun talin viðunandi

Finna þurfti tímabundið húsnæði fyrir 2. til 4. bekk í …
Finna þurfti tímabundið húsnæði fyrir 2. til 4. bekk í Fossvogsskóla en skólahald hófst í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú aðferðafræði sem stuðst var við til þess að velja tímabundið húsnæði barna í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla var talin viðunandi, að sögn Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, teymisstjóra samskiptasviðs borgarinnar.

Hún segir að könnunin hafi verið gagnleg við ákvarðanatöku borgarinnar.

Foreldrum var gefinn sólarhringsfrestur til þess að svara könnun á því hvaða húsnæði þeir teldu best.

Gagnrýnisraddir úr foreldrasamfélaginu hafa bent á ýmsa vankanta á framkvæmd könnunarinnar. Hún hafi verið opin hverjum sem vildi taka þátt og engar upplýsingar hafi legið fyrir um þá valkosti sem boðið var upp á og því erfitt að móta sér skoðun á svo knöppum tíma.

Ráðgefandi könnun

Í skriflegu svari Evu Bergþóru við spurningum blaðamanns segir að könnunin hafi eingöngu verið ráðgefandi til að fá upplýsingar um hug foreldrahópsins. Það breyti því ekki að endanleg ákvörðun á tilhögun skólastarfs sé í höndum Reykjavíkurborgar.

„Varðandi framkvæmdina á könnuninni, þá var foreldrum þessara þriggja árganga sendur hlekkur í gegnum Mentor, samskiptavef skóla og foreldra, og þeir voru beðnir að taka fram nafn barns síns og merkja við í hvaða bekk barnið væri til að tryggja að atkvæði væru ekki greidd oft fyrir hvert barn,“ segir í svarinu.

Farið yfir nafnalista og IP-tölur

Á laugardag segir hún að farið hafi verið yfir nafnalista hvers árgangs. Svör hafi borist frá foreldrum 80 prósent barna í öllum árgöngum.

„Þegar svörin voru tekin saman og ekki horft til þeirra sem ekki gáfu upp nafn barns síns var niðurstaðan afgerandi.“ 

Skoðað var sérstaklega hvort ákveðnar IP-tölur kæmu óeðlilega oft fyrir og svo var ekki, að sögn Evu Bergþóru. „Þau fáu tilvik þar sem IP-tala kom oftar fram en fjöldi barna gaf tilefni til var ekki nafns barns getið og þær því ekki taldar með í niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar.“

Niðurstaðan var afgerandi og skýr að mati Evu Bergþóru. „70 prósent foreldra og forráðamanna og yfir 90 prósent kennara og starfsfólks umræddra árganga lýstu yfir stuðningi við þann kost að nýta húsnæði Hjálpræðishersins fyrir skólastarf fyrstu vikurnar.“

mbl.is