Brim skilar 1,8 milljarðs króna hagnaði

Skuttogari Brims, Akurey, að veiðum.
Skuttogari Brims, Akurey, að veiðum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. hagnaðist um rúmlega 1,8 milljarða króna, eða rúmlega 12 milljónir evra, á öðrum ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra hagnaðist fyrirtækið um ríflega 5 milljónir evra, eða 750 milljónir króna, og er því afkomubatinn milli tímabila 145%.
Eignir Brims í lok tímabilsins námu 114 milljörðum króna eða 762 milljónum evra, og minnkuðu eignirnar frá árslokum síðasta árs þegar þær voru 765 milljónir evra.
Eigið fé fyrirtækisins er nú 52 milljarðar króna, eða 346 milljónir evra, en það var 337 milljónir evra í lok síðasta árs. Munurinn er 2,6%.
Eiginfjárhlutafall Brims er 45%.

Ánægður með afkomuna

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims kveðst í tilkynningu frá félaginu vera ánægður með uppgjörið og afkomuna á fyrri hluta ársins. Hann segir reksturinn stöðugan þrátt fyrir óróa á heimsmörkuðum. „Engu að síður eru alltaf sveiflur í sjávarútvegi eins og dæmi frá í vetur sýna þegar leyfðar voru loðnuveiðar eftir nokkura ára hlé en þær gengu vel og sala loðnuafurða sömuleiðis,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Kristjánsson í Brimi.
Guðmundur Kristjánsson í Brimi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bætir við að vegna sveiflna og stöðugra breytinga í sjávarútvegi verði eigendur og stjórnendur að horfa til langs tíma. „Í áratugi hefur það verið þaulhugsuð stefna Brims að kyrrsetja í félaginu stóran hluta hagnaðar á ári hverju til að styrkja og auka við eigið fé félagsins. Þannig hefur fyrirtækið á hverjum tíma getað fjárfest til frekari uppbyggingar, t.d. í öflugum skipum, mannauð, aflaheimildum, nýrri tækni og tækjabúnaði og nýsköpun til að takast á við breytta tíma. Á þessu ári eru það nýlegar fjárfestingar í ísfisktogurum og hátæknivinnslu í Norðurgarði sem skila auknum verðmætum í botnfiski og á uppsjávarsviði félagsins skilaði öflugt sölustarf dótturfélags Brims í Japan góðum verðum fyrir loðnuafurðir á þessu ári en Brim fjárfesti í félaginu fyrir tveimur árum.“

mbl.is