Húsnæðismálin verða í forgrunni í komandi þingkosningum eftir tæpan mánuð að sögn Drífu Snædal, forseta ASÍ. Þetta, og fleira, segir hún í vikulegum pistli sínum.
Hún segir að samtöl hennar við fjölda fulltrúa, stjórnarmanna og trúnaðarmanna sambandsins, hafi fært henni heim sanninn um að áherslur ASÍ frá því í vor hafi verið réttar.
Þær áherslur eru að húsnæðismál séu ekki aðeins einn stærsti áhrifavaldur öryggis og afkomu fólks, heldur er húsnæðisskortur steinn í götu atvinnulífs um land allt.
Það er skýlaus krafa ASÍ, að sögn Drífu, að húsnæðismálin skuli nálgast með félagslegum hætti á komandi kjörtímabili þannig að tryggja megi húsnæði handa öllum, bæði einstaklingum og atvinnurekendum, á viðráðanlegum kjörum.
Þar að auki segir Drífa að heilbrigðismál hafi verið ofarlega á baugi víða um land. Ekki aðeins með tilliti til öldrunarþjónustu og aðgengi að heilsugæslu, heldur einnig með tilliti til fæðingarþjónustu og langtímameðferða.
Hún bendir á að oft þurfi fólk, sem býr utan stærri þéttbýliskjarna, að nýta orlof og veikindadaga til að dvelja á sjúkrahúsum í Reykjavík og á Akureyri þegar það á von á barni.
Það segir Drífa að sé bein kjaraskerðing við fólk eftir búsetu og sé einn þeirra fjölmörgu þátta í þeirri endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins sem þörf er á – himinn og haf sé á milli þjónustu við þá sem búa í þéttbýli í samanburði við þá sem búa í dreifbýli.