Viðreisn leggur í stjórnmálaályktun sinni áherslu á að bæta þurfi lífskjör landsmanna og rekstrarumhverfi fyrirtækja og leggur til að binda gengi krónunnar við evru til að lækka vexti landsmanna.
„Markviss efnahagsstjórn og aukið viðskiptafrelsi er í þágu allra. Stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir sterkari stöðu heimilanna, efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni í atvinnulífinu og varanlegri aukningu kaupmáttar,” segir í ályktuninni sem var gefin út í kjöflar landsfundar flokksins í dag.
Fram kemur að Viðreisn vilji sanngjarnar leikreglur í sjávarútvegi með því að hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári. Þannig verði í fyllingu tímans allar veiðiheimildir bundnar slíkum samningum og útgerðin greiði fyrir afnot af fiskimiðunum í samræmi við markaðsverðmæti aflaheimilda.
„Viðreisn leggur áherslu á að heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða óháð efnahag og þjónusta við fólk á að vera leiðarstefið, fremur en rekstrarform þeirra sem þjónustuna veita. Blönduð leið er best og þess vegna hafnar Viðreisn aðför núverandi ríkisstjórnar að sjálfstætt starfandi stofum og sérfræðingum. Afleiðingarnar eru óboðlegir biðlistar og aukinn kostnaður, ekki síst fyrir íbúa landsbyggðanna,” segir m.a í ályktunni. Auk þess vill flokkurinn setja baráttuna við loftslagsvána í forgang.
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður kynnti í dag Græna þráð Viðreisnar. „Græni þráður Viðreisnar snýst ákveðna hugmyndafræði sem liggur til grundvallar nálgun Viðreisnar í umhverfis- og loftslagsmálum. Hugmyndafræði sem felur í sér að loftslagsmál og náttúruvernd er áberandi í öllum okkar helstu stefnumálum. Græni þráðurinn er staðfesting á þeim skilningi Viðreisnar að öll mál eru umhverfismál,” segir Hanna Katrín í ályktuninni.