Maðurinn sem gekk inn á skrifstofu Knattspyrnusambands Íslands fyrr í dag og hafði uppi hótanir við starfsfólk sambandsins, kvaðst ósáttur við flóðlýsingu Laugardalsvallar.
Er hann sagður hafa hótað því að skjóta ljósin niður með skotvopni, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Var hann farinn af vettvangi þegar lögregla kom á vettvang og fannst ekki.
Knattspyrnusambandið hefur legið undir harðri gagnrýni undanfarna daga eftir að þolandi steig fram og lýsti því að landsliðsmaður hefði beitt hann ofbeldi á skemmtistað árið 2017.
Í kjölfarið lét Guðni Bergsson af störfum sem formaður sambandsins á sunnudaginn var og í gær ákvað stjórn KSÍ einnig að stíga til hliðar.
KSÍ hefur verið sakað um þöggun og meðvirkni með öðrum meintum gerendum innan sambandsins og kallað hefur verið eftir gagngerum breytingum innan sambandsins.