Mál KSÍ öðlast heimsfrægð

Knattspyrnusamband Íslands
Knattspyrnusamband Íslands Kristinn Magnússon

Fréttastofan AFP er á meðal þeirra erlendu fréttamiðla sem hafa fjallað um mál KSÍ. Þar er stiklað á stóru á því sem gengið hefur á síðustu daga.

Þá er greint frá afsögn Guðna Bergssonar, fyrrverandi formanns KSÍ, yfirlýsingu stjórnar og svo afsögn stjórnarinnar í heild.

Rakið er upphaf málsins. Greint er frá því þegar Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram í viðtali hjá RÚV þar sem hún gagnrýndi þöggunarmenningu KSÍ og sagði frá reynslu sinni af kynferðisbroti af hálfu landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar. 

Farið er yfir yfirhylmingu og þöggun sambandsins og viðbrögð félagsliðs Kolbeins, IFK Gothenburg. 

Fleiri erlendir miðlar hafa tekið upp málið í framhaldinu. Til að mynda Barron‘s, Times of Malta og Channels TV.

Á Twitter hafa einstaklingar deilt færslu AFP, einn merkti sérstaklega Knattspyrnusamband Brasilíu í sína færslu og aðrir hafa gefið í skyn að KSÍ sé ekki eina knattspyrnusambandið í heiminum sem hefur látið þöggunarmenningu viðgangast. 

mbl.is