Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og félög innan Íslensks toppfótbolta (ÍTF) styðja Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) heilshugar við framkvæmd þeirrar aðgerðaráætlunar sem samþykkt var á fundi stjórnar KSÍ í gær, að því er segir í yfirlýsingu frá ÍSÍ, KSÍ og ÍTF.
Á fundi KSÍ í gær var samþykkt að boðað verði til aukaþings KSÍ þar sem kosin verður bráðabirgðastjórn. Stjórn, varafulltrúar og landshlutafulltrúar munu segja af sér.
Þá segir í yfirlýsingunni að ÍSÍ og KSÍ hafa skipað faghóp sem vinnur að gerð og endurskoðun nauðsynlegra verkferla svo tryggja megi enn betur rétt viðbrögð við tilkynningum viðkvæmra mála.
„Faghópurinn vinnur í samstarfi við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála. Uppfærðir verkferlar verða innleiddir í allar einingar ÍSÍ svo að hreyfingin verði í heild sinni betur í stakk búin að sinna málum af fagmennsku,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er óskað eftir því í yfirlýsingunni að knattspyrnuhreyfingin fá svigrúm til að framfylgja aðgerðaráætlun svo hægt sé að bæta með sem skjótustum hætti úr málum.
„Orðspor knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi hefur beðið hnekki en hreyfingin býr yfir styrk, getu, tækifærum og öflugu starfsfólki, iðkendum og sjálfboðaliðum sem í sameiningu geta bætt úr og mætt þeim áskorunum sem fram hafa komið.“