Fráfarandi stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, nýtur stuðnings Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, og Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.
Þetta kom fram í skriflegu svari UEFA við fyrirspurn mbl.is en forráðamenn KSÍ funduðu með fulltrúum UEFA og FIFA í morgun.
Sitjandi stjórn KSÍ ákvað að stíga til hliðar í gær eftir að sambandið var sakað um bæði þöggun og meðvirkni með öðrum meintum gerendum innan sambandsins.
„Til að koma í veg fyrir meiriháttar lagaflækjur og aðrar truflanir tengdar komandi landsleikjum karla- og kvennalandsliðs Íslands hafa UEFA og FIFA ákveðið að styðja stjórn KSÍ áfram þangað til eftir aukaþing sambandsins,“ segir í svari UEFA við fyrirspurn mbl.is.
„Samkvæmt reglum sambandsins getur aukaþing farið fram í fyrsta lagi hinn 2. október 2021. UEFA og FIFA munu áfram fylgjast náið með gangi mála á Íslandi.
Þá munu fulltrúar frá báðum samböndum ferðast til Íslands í næstu viku og funda með forráðamönnum sambandsins. Fulltrúar UEFA og FIFA munu einnig sitja aukaþing,“ segir enn fremur í svari UEFA.