Innan við þriðjungur kjósenda er harðákveðinn um hvaða flokk hann ætlar að kjósa í alþingiskosningunum 25. september, meirihlutinn telur aðra flokka einnig koma til greina þegar í kjörklefann er komið. Þetta kemur fram í skoðanakönnunum, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið miklar fylgissveiflur í helstu skoðanakönnunum undanfarna mánuði og misseri, þá er ekki gefið að þar sé allt með kyrrum kjörum. Það sést vel þegar rýnt er í svör, sem MMR fékk við spurningum um hvaða flokk fólk hygðist kjósa, hvort aðrir flokkar kæmu til greina og þá hverjir. Þar er byggt á svörum úr þremur könnunum MMR, sem fram fóru 24. júní til 6. júlí, 8. til 14. júlí og 18. til 24. ágúst.
Við blasir að flokkshollusta er ekki jafnalmenn og raunin var á liðinni öld, líkt og endurspeglast í því að fæstir stjórnmálaflokkar eru þær fjöldahreyfingar og þá var títt. Flokkshollustan er þó enn til staðar, en mjög misjöfn eftir flokkum. Hún er langmest meðal stuðningsmanna Flokks fólksins, en 41% þeirra geta ekki hugsað sér að kjósa neinn flokk annan.
Aftur á móti er minnsta staðfestu að finna meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar, en aðeins 19% geta aðeins hugsað sér að kjósa hana. Hún er þó aðeins sjónarmun minni en hjá Miðflokki, Sósíalistum og Viðreisn. Um 25% stuðningsmanna Pírata og Vinstri grænna vilja ekkert annað kjósa, en 31% og 32% stuðningsmanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Þetta þýðir líka að þrátt fyrir litlar fylgissveiflur er enn eftir töluverðu að slægjast fyrir flokkana í kosningabaráttunni, mismiklu þó. Sjálfstæðisflokkurinn kemur þannig til greina hjá 33% kjósenda, en Framsókn, Samfylking, Vinstri græn og Viðreisn koma til greina hjá 22-26% svarenda. Kosningabaráttan og lokasprettur hennar getur því skipt sköpum.
Hafi einhverjir áhyggjur af fjölgun flokka á þingi, þá geta þeir huggað sig við að mjög auðvelt er að greina skautun, jafnvel bálkamyndun, til hægri og vinstri. Það kynni að gefa til kynna kosti á samstarfi eða samruna flokka, nú eða bálkaskiptingu, eins og algeng er í norrænum stjórnmálum.
Þannig blasir við að margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks geta hugsað sér að kjósa hina flokkana á hægri væng.
Stuðningsmenn Viðreisnar eru mun blendnari í sinni afstöðu, margir þeirra gætu kosið Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn (en sárafáir Miðflokk) og enn fleiri Samfylkingu og Pírata, svo hann virðist kominn í hina gömlu stöðu Framsóknarflokksins á miðjunni og opinn í báða enda!
Mögulegur tilflutningur á fylgi á vinstri vængnum er ekki minni og raunar má segja að þar sé uppi svipuð staða og fyrr á árum, þegar vinstrafylgi var miklu frekar fljótandi á milli flokka en gerðist hægra megin. Þannig er ljóst að Samfylkingin er í mjög viðkvæmri stöðu, þar sem fjórðungur stuðningsmanna hennar getur hugsað sér Viðreisn, annar fjórðungur gæti kosið Vinstri græna, 16% Sósíalista og heil 38% Pírata. Þar á móti kemur að nær þriðjungur stuðningsmanna Pírata gæti kosið Samfylkingu.
Sömuleiðis gæti Samfylking hoggið í raðir Vinstri grænna, þar sem 35% stuðningsmanna geta hugsað sér að kjósa Samfylkingu. Loks blasir við samgangurinn milli Pírata og Sósíalista en þar eiga margir fylgismenn þeirra erfitt með að gera upp á milli þeirra.