Mikil ringulreið og óvissa hefur ríkt innan knattspyrnuhreyfingarinnar í aðdraganda landsleiksins sem fer fram á Laugardalsvelli í kvöld, þegar A-landslið karla mætir Rúmenum í undankeppni HM. Uppselt er á leikinn en tæpum tveimur tímum fyrir hann hefur verið boðað til mótmæla þar sem þess verður krafist að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segi af sér. Hún er nú í leyfi.
Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram í síðustu viku og greindi frá því að landsliðsmaður hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi árið 2017. Segir hún það algjört lágmark að stjórn KSÍ og formaður hafi vikið frá störfum. Vill hún sjá róttækar breytingar innan sambandsins og telur hún réttast í stöðunni að framkvæmdastjórinn segi einnig af sér.
„Það er ekki rétt orðað að segja að þau séu að axla ábyrgð en þau hafa alla vega ekki reynt að þrauka.“
Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaðurinn sem Þórhildur vísar til, sendi út yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist iðrast. „Vorið 2018 hitti ég Þórhildi Gyðu og vinkonu hennar og hlustaði á þeirra upplifun. Ég kannaðist ekki við að hafa áreitt þær eða beitt ofbeldi og neitaði sök. Hegðun mín var hins vegar ekki til fyrirmyndar og baðst ég afsökunar á henni,“ segir í yfirlýsingunni.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segist ekki geta svarað fyrir það hvort Kolbeinn eigi afturkvæmt í landsliðið. Það sé ekki hans ákvörðun að taka.