Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sett af stað formlegt svar alríkisstjórnar gegn nýjum lögum Texas-ríkis sem bannar flestar fóstureyðingar.
Hæstiréttur ákvað í fyrradag að ógilda ekki lögin og telur Biden það vera „fordæmalausa árás á réttindi kvenna.“
Samkvæmt lögunum hefur nú hver sem er rétt á að lögsækja hvern þann sem aðstoðar þungaða konu við að rjúfa meðgöngu eftir sjöttu viku.
Meirihluti hæstaréttar tók ekki afstöðu til hvort þau færu á svig við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Því er mögulegt að höfða dómsmál til að láta reyna á lögmæti laganna.
Biden segir lögin ganga gegn meginreglu dómsmálsins, Roe v. Wade-máli frá áttunda áratugnum, þar sem konur öðluðust þann rétt, með ákvörðun hæstaréttar Bandaríkjanna, að rjúfa meðgöngu allt þar til fóstur gæti lifað utan móðurkviðs, sem vanalega er miðað við 22. - 24. viku.
Forsetinn hefur því farið þess á leit við heilbrigðismálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið að þau finni leiðir til að „aðgreina konur og þungunarrofsstofnanir“, án þess að útskýra frekar hvað hann á við með því.
Biden sakar hæstarétt um að hafa leyst úr læðingi „ringulreið sem bryti í bága við stjórnarskránna“.
„Hæstiréttur mun leyfa milljónum einstaklinga í Texas sem þurfa á meðferð að halda að þjást á meðan dómstólar sigta í gegnum flókið málaferli,“ sagði Biden.
Greg Abbott ríkisstjóri Texas segir að ríki hans muni ávalt verja réttinn til lífs.